Smásöluvísitala: apríl 2019
Fast verðlag; 12 mán breyting
-2,0%
Dagvara
Smásöluvísitala
0
0
Kortanotkun erlendra ferðamanna desember 2018
12 mán breyting
14. júlí 2016 15:47

EM hafði töluverð áhrif á verslun

Verslun í júní var ekki ósnortin af Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu og sjá má merki um neyslubreytingar í tengslum við keppnina í Smásöluvísitölu mánaðarins. Íslendingar gerðu vel við sig í mat og drykk í júní en dagvöruverslun var 8,3% meiri en í júní í fyrra og fjöldi seldra lítra í vínbúðunum var 14% meiri en fyrir ári síðan. Sala svokallaðra brúnna raftækja, þar með talið sjónvarpstækja var 30% meiri en í júní 2015

 

Dagvöruverslun hefur verið afar lífleg það sem af er ári og hefur verslun með dagvöru undanfarna sex mánuði verið 7% meiri en á fyrri helmingi ársins í fyrra. Eins og áður sagði var dagvöruverslun 8,3% meiri í júní síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi en 7% meiri á föstu verðlagi. Verðlag dagvöru hefur hækkað um 1,2% frá fyrra ári

Áfengisverslun var mikil í júní og var velta áfengisverslunar 26,2% meiri en í júní í fyrra og 14% fleiri lítrar seldir samkvæmt tölfræði Vínbúðanna. Líkt og áður þarf að líta til þess að kerfisbreytingar voru gerðar á gjaldheimtu áfengis um áramótin þegar áfengisgjöld voru hækkuð en virðisaukaskattur lækkaður. Því hækkar velta án VSK, sem Smásöluvísitalan byggir á, meira en velta með VSK.

 

Mest veltuaukning í júní var í flokki húsganga, 38,6% meira en í júní í fyrra á breytilegu verðlagi. Verðlag húsgagna var 1,5% lægra en á sama tíma í fyrra og jókst velta því um 40,7% á föstu verðlagi á sama tíma.

 

Margir gripu tækifærið og uppfærðu sjónvarpstæki sín en eins og kom fram í inngangi var um 30% veltuaukning í flokki brúnna/minni raftækja frá sama mánuði í fyrra en flokkurinn inniheldur meðal annars sjónvörp. Minni vöxtur var í veltu annarra raftækja og jókst velta með hvít/stærri raftæki um 3,4% frá fyrra ári og 1,8% meiri verslun var með farsíma samanborið við júní í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta í tölvuverslun var 20,6% minni en í júní 2015 en þess ber að geta að í júní í fyrra var verslun með með tölvur óvenju mikil. Verðlag raftækja er nokkuð lægra en í júní 2015 samkvæmt verðlagsmælingum Hagstofunnar  en þess ber að geta að gæðabreytingar raftækja hafa þar nokkuð að segja.

 

Byggingavöruverslun í júní jókst um 13,1% frá fyrra ári á breytilegu verðlagi. Er um nokkuð minni aukningu að ræða en undanfarna mánuði en síðustu þrjá mánuði á undan var vöxturinn 27,5% borið saman við sömu mánuði árið 2015. Líklegt má telja að EM í knattspyrnu hafi haft letjandi áhrif á byggingaframkvæmdir landsmanna en skal þó ósagt hve mikil áhrif mótið hafði á vísitölu mánaðarins.

 

Fataverslun jókst um 13,8% frá sama mánuði í fyrra en var 2,7% minni en í maí síðastliðnum á breytilegu verðlagi. Verðlag fatnaðar í júní síðastliðnum var 5,5% lægra en í júní 2015 en tollar á fatnað voru felldir niður um áramótin. Skóverslun í júní var 8,5% meiri í júní en í júní fyrir ári síðan á breytilegu verðlagi.

 

Önnur áhrif EM á verslun og þjónustu

 

Rannsóknasetur verslunarinnar fór á stúfana og hafði samband við seljendur vöru og þjónustu til að kanna hvort Evrópumeistaramótið í knattspyrnu hefði haft áhrif á neyslu.

 

Líkt og kom fram að ofan var vöxtur í bygginavöruverslun á milli ára minni í júní en mánuðina á undan en samkvæmt heimildum Rannsóknasetursins dróst sala á algengum vörum til viðhalds húsa, sem dæmi pallaolíu saman á meðan á EM stóð. Sömu sögu er að segja af blómum og garðplöntum.

 

Grillmatur og pizzur voru vinsæll matur á borðum landsmanna á meðan á EM stóð. Mikil aukning var í pizzasölu hjá Dominos á Íslandi í júní mánuði ólíkt því sem að hefur verið síðustu ár en yfir sumartímann hefur grillið jafnan vinninginn fram yfir pizzurnar hjá landsmönnum. Af þessu er þó ekki að ráða að smekkur landsmanna fyrir pizzum hafi dregið úr sölu grillkjöts en samkvæmt frétt RÚVvar stóraukin sala á lambakjöti í júní síðastliðnum.

 

Víða um land buðu sportbarir upp á beinar útsendingar frá leikjum mótsins en veruleg aukning varð í sölu bjórkúta til veitinga-, skemmtistaða og kráa á milli ára. Leiða má að því líkum að EM hafi haft veruleg áhrif á neysluhegðun Íslendinga og einnig á ferðavenjur þeirra.

 

Tjaldsvæði landsins voru fremur fásetin íslenskum ferðamönnum í júní. Í Húsafelli voru talsvert færri Íslendingar á svæðinu í ár en á sama tíma í fyrra en í júní mánuði er alla jafna mikið um Íslendinga á tjaldsvæðinu. Talsvert var þó um erlenda ferðamenn á svæðinu líkt og fyrri ár. 

 

 

 

Tilkynningin á PDF sniði

 

Talnaefni

 

 

Senda á Facebook
Rannsóknarsetur verslunarinnar
Saga RSV
Erlend verkefni

Rannsóknasetur verslunarinnar,
Bifröst, 
311 Borgarbyggð,
Sími: 533 3530.

GSM: 868 4341 eða 868 8825.

 

Forstöðumaður:

Árni Sverrir Hafsteinsson

Póstfang: arni@bifrost.is

Sími: 868 4341

Rannsóknasetur verslunarinnar var stofnað árið 2004.
Að því standa, Atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneytið, SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu, VR, Háskólinn á Bifröst og  Bílgreinasambandið.

Þá aflar rannsóknasetrið sértekna með rannsóknastyrkjum og tekna vegna verkefnavinnu fyrir einstök fyrirtæki, hagsmunasamtök og opinbera aðila.