Greiðslukortavelta Íslendinga dróst saman um 12,5% í mars síðastliðnum samanborið við mars í fyrra. Kortavelta í verslun er samt í heildina nær óbreytt frá sama mánuði í fyrra en þjónustuflokkarnir taka höggið. Netverslun ríflega tvöfaldast á milli ára. Heildarvelta greiðslukorta Íslendinga hérlendis í mars síðastliðnum nam 56,4 milljörðum kr. samanborið við 64,4 ma. í mars 2019. Samdrátturinn nemur því 12,5% að nafnvirði á milli ára. Þegar einungis er litið til kortaveltu í verslun hefur orðið lítil breyting á milli ára að nafnvirði, eða um -0,72%. Töluverður munur er þó á milli flokka verslunar þar sem velta eykst í sumum flokkum en dregst saman í örðum. Netverslun jókst um 111% á milli ára og var í stöðugum vexti allan mánuðinn. Að neðan má sjá mynd af því hvernig netverslun þróaðist innan mánaðarins sem hluti af verslun í heild.
Netverslun í mars 2020 nam 1,7 milljarði samanborið við rúmar 800 milljónir í mars 2019.
Velta jókst í dagvöru og stórmörkuðum, raftækjum, byggingavöru, lyfsölu og áfengi Dagvöruverslun og stórmarkaðir er stærsti flokkurinn í verslun en þar jókst kortaveltan um tæp 12% á milli ára í mars eða um 1,7 milljarða og nam tæpum 16 milljörðum. Þess ber að geta að flest mötuneyti vinnustaða og veitingahús hafa dregið úr kaupum á matvælum frá heildsölum og þau kaup hafa líklega færst í kaup einstaklinga í dagvöruverslunum. Í raftækjaverslun jókst kortavelta í mars um 29% samanborið við sama mánuð í fyrra og nam tæpum tveimur milljörðum. Þá jókst kortavelta í byggingavöruverslun um 9% og nam 2,1 milljarði í liðnum marsmánuði. Hugsanlegt er þó að heildarvelta byggingavöruverslana hafi þróast með öðrum hætti enda eru reikningsviðskipti iðnaðarmanna ekki talin með í kortaveltu. Kortavelta í lyfja-, heilsu og snyrtivöruverslunum jókst um 18% á milli ára, og um heil 177% á netinu frá mars í fyrra. Loks jókst kortavelta í áfengisverslun um tæp 22% á milli ára og nam 2,2 milljörðum í mars síðastliðnum. Samdráttur var sölu eldsneytis fata og heimilisbúnaðar Eldsneytissala dróst saman um 19% á milli ára í mars og nam 3,8 milljörðum í mánuðinum sem leið. Þetta rímar ágætlega við tölfræði Vegagerðarinnar en samkvæmt henni var 21% minni umferð á Höfuðborgarsvæðinu í mars nú en í fyrra. Þessar tölur eru að nafnvirði en eldsneytisverð lækkaði bæði á milli ára og innan marsmánaðar í ár. Fataverslun á við mikinn samdrátt að stríða. Kortavelta í fataverslun dróst saman um 36% og nam 1,4 milljarði í marsmánuði samanborið við 2,2 milljarða í mars 2019. Þá var 15% samdráttur í verslun með heimilisbúnað. Vert er að taka fram að netverslun jókst mikið á milli ára, jafnvel í þeim flokkum þar sem heildarvelta dróst saman. Þannig jókst netverslun með föt um 135% og netverslun með heimilisbúnað um 177% á milli ára í mars. Rauðar tölur í þjónustu Innlend kortavelta veitingastaða dróst saman um 31% í mars og nam 3,4 milljörðum samanborið við 5 milljarða í fyrra. Menningartengd þjónusta svo sem söfn, tónleikastaðir, leikhús og bíó dróst saman um 32% samkvæmt kortaveltutölunum en veltan í þessum flokkum nam samtals 1,7 milljarði í mars síðastliðnum samanborið við 2,5 milljarða í mars í fyrra. Kortavelta snyrtistofa og áþekkra aðila dróst saman um 24% í mánuðinum sem leið en starfsemi þessara aðila var bönnuð með hertu samkomubanni þann 24. mars. Að neðan má sjá mynd af kortaveltu snyrti- og rakarastofa
Þá var mikill samdráttur í innlendri kortaveltu í flokka ferðaþjónustu. Þannig minnkaði innlend kortavelta gistiþjónustu um 46% og innlend kortavelta ferðaskrifstofa um 82% í mars síðastliðnum. Raunar jókst innlend velta bílaleiga um 5,6% í mars. Mögulega má skýra þann vöxt með því að fleiri hafi kosið að nýta bílaleigubíla í stað almenningssamgangna til að gæta að smitvörnum.
Comments