top of page

Hóflegri hækkun í kortunum innanlands

Innlend kortavelta Íslendinga jókst hóflega milli ára í ágúst, sérstaklega í samanburði við kraftmikla kortaveltu maí til júlí. Tæplega tveggja prósenta aukning var í ágúst frá sama mánuði í fyrra en til samanburðar var árshækkun mánaðanna þriggja á undan 14-18%. Heildarvelta íslenskra korta hérlendis nam 70,7 milljörðum kr. í ágúst, þar af fóru 39,9 milljarðar í verslun. Verslun á netinu nam 2,1 milljörðum og tvöfaldaðist milli ára.

Enn er kortavelta stórmarkaða og dagvöruverslana óvenjuhá og jókst hún um 13% í ágúst samborið við fyrra ár. Á milli mánaða dróst veltan þó saman um 7,9%. Minni veltu í flokknum í ágúst samanborið við júlí má meðal annars skýra með því að föstudag í verslunarmannahelgi bar upp í júlí í ár en ágúst í fyrra. Þá var júlí óvenju veltuhár miðað við síðastliðin ár og raunar metmánuður í kortaveltu, bæði í dagvöruverslun og kortaveltu Íslendinga alls.

Í öðrum flokkum verslunar var nokkur aukning á milli ára í ágúst, hlutfallslega var mest aukning í flokki raf- og heimilistækja eða 35,8%. Velta þess flokks nam 2,9 milljörðum kr. og þar af 396 milljónum í netverslun.

Innlend kortavelta byggingavöruverslana nam 3,3 milljörðum í ágúst síðastliðnum, jókst veltan um 23% samanborið við sama tíma í fyrra. Þá veltu innlend kort 2,6 milljörðum í verslunum með heimilisbúnað.

Innlend kortavelta í gistiþjónustu dróst saman um 42% milli mánaðanna júlí og ágúst en á milli ára var aukningin tæp 70%, nam velta flokksins 1,3 milljarði kr. Mikill samdráttur var í veltu ferðaskrifstofa milli ára, var lækkunin 83% og nam velta innlendra korta í flokknum 262 milljónum kr. Innlend kortavelta veitingaþjónustu var nánast óbreytt milli ára.



77 views

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page