top of page

Innlend kortavelta Íslendinga aldrei hærri en í júlí

Heildarvelta innlendra greiðslukorta hér á landi nam 81,2 milljörðum króna i júlí en þar af nam verslun 44,7 milljörðum króna. Aldrei hefur kortavelta Íslendinga hérlendis verið jafnhá, frá því að Rannsóknasetur verslunarinnar hóf birtingu talnanna. Hlutfallsvöxtur innlendra korta hérlendis nam 18,5% frá sama mánuði í fyrra. Ástæðu kröftugrar neyslu íslendinga hérlendis má rekja til þess að fáir landsmenn hafa leitað út fyrir landsteinana í sumar, hefur neysla því færst hingað til lands í staðinn. Íslendingar greiddu ríflega tvöfalt meira til gististaða í júlí síðastliðnum samanborið við júlí í fyrra, alls 2,2 milljarða í júlí í ár samanborið við 930 milljónir í fyrra. Í júnímánuði var innlend kortavelta gististaða einnig há eða um 1,3 milljarðar, 75% meira en í júní í fyrra. Innlend kortavelta veitingastaða jókst hóflegar á milli ára, um 29% og nam 6,8 milljörðum í júlí sem leið. Þá jókst eldsneytissala til íslendinga um tæp 7% samanborið við júlí 2019. Verslun var blómleg í júlí og nam innlend kortavelta verslunar, líkt og áður sagði 44,7 milljörðum króna í mánuðinum, 27,4% meira en í júlí í fyrra. Óvenjulegt er að verslun sé jafn fjörug í júlímánuði og til samanburðar má nefna að verslun í desember síðastliðnum, stærsta verslunarmánuði ársins, nam ríflega 45 milljörðum króna út frá sama mælikvarða. Innlend kortavelta jókst á milli ára í öllum undirflokkum verslunar sem setrið birtir. Verslun á netinu jókst á milli ára um 83% og versluðu Íslendingar fyrir 1,7 milljarða í innlendum netverslunum í júlí. Þegar samkomutakmarkanir voru sem mest íþyngjandi í apríl, var hlutfall netverslunar af heildarverslun 9%. Hlutfallið lækkaði mánuðina á eftir og í júlí mánuði var hlutfallið 3,9%. Er það ívið hærra hlutfall en var fyrir COVID.


Stórmarkaðir og dagvöruverslanir eru eftir sem áður stærsti undirflokkur verslunar og nam innlend kortavelta flokksins alls 18,4 milljörðum kr. í júlí. Þá voru Íslendingar duglegir að versla í raf- og heimilistækjaverslunum og í verslunum með heimilisbúnað. Í fyrrnefnda flokknum jókst innlend kortavelta um 43% milli ára í júlí og um 23% í þeim síðarnefnda. Í raf- og heimilistækjaverslunum nam veltan alls 2,3 milljörðum kr. þar af voru 267 milljónir í netverslun. Rúmlega tvöföldun á milli ára.

25 views

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page