top of page

Kröftug innlend neysla í maí

Kortavelta Íslendinga hérlendis var 13,6% hærri í maí síðastliðnum en í maí í fyrra. Íslendingar kaupa nú gistiþjónustu í auknu mæli, leigja bílaleigubíla og kortavelta verslana vex enn mikið. Í maí nýttu Íslendingar sér það aukna neyslusvigrúm sem færri utanlandsferðir og minni þjónustukaup undanfarinna mánaða hefur skapað í kaup á innlendum vörum og þjónustu. Í apríl og mars dróst kortavelta Íslendinga hérlendis saman um 13%, sem aðallega bitnaði á seljendum þjónustu. Þá eru venjulega margir sem kaupa sér flug og aðra ferðaþjónustu erlendis á þessum árstíma sem sleppa því nú. Kortatölurnar í maí síðastliðnum sýna að Íslendingar stefna á ferðalög innanlands í ár. Þannig jókst innlend kortavelta gististaða um helming og nam tæpum 600 milljónum í maí samanborið við tæpar 400 milljónir í maí 2019. Aukningin er að mestu á netinu sem bendir til þess að verið sé að kaupa ferðir fram í tímann, 158 milljónir í maí 2020 samanborið við 36 milljónir í fyrra. Þá tvöfaldaðist innlend kortavelta bílaleiga á milli ára og nam 200 milljónum í maí. Kortavelta ferðaskrifstofa er þó ekki svipur hjá sjón enda selja margar þeirra ferðaskrifstofa sem þjónað hafa Íslendingum aðallega ferðir til útlanda. Innlend kortavelta þeirra dróst saman um 87% á milli ára og nam einungis 161 milljón í maí í ár samanborið við 1,3 milljarða í sama mánuði í fyrra.

Verslun Íslendinga innanlands í maí í ár er 22% meiri samanborið við maí í fyrra. Velta korta í verslun í maí nam 43,6 milljörðum samanborið við 35,5 milljarða í sama mánuði í fyrra. Flestir flokkar verslunar hækka töluvert á milli ára. Kortavelta Íslendinga í byggingavöruverslun nam 4,4 milljörðum í maí og hefur líklega ekki verið hærri að nafnvirði í einum mánuði áður. Kortavelta í byggingavöruverslun jókst um 37% frá maí í fyrra. Sá varnagli skal þó sleginn að kaup iðnaðarmanna á efni eru gjarnan í reikning og sýnir kortaveltan því verslun heimilanna í byggingavöruverslun í ríkara mæli en iðnaðarmanna. Til samanburðar er hækkun á veltu byggingavöruverslunar 9,5% frá maí í fyrra samkvæmt Smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar. Innlend kortavelta stórmarkaða og dagvöruverslunar hækkaði um 20% og nam 17,8 milljörðum í maí. Áfengisverslun jókst í maí, frá fyrra ári um 46% enda hafa takmörk á opnunartímum vínveitingastaða líklega fært vettvang áfengisneyslu yfir í heimahús. Fataverslun hefur ein fárra verslunarflokka þurft að þola mikinn samdrátt í veltu undanfarna mánuði. Þannig lækkaði innlend kortavelta fataverslunar um 36% og 28% í mars og apríl. Í maí hækkaði hins vegar kortavelta fataverslana um 19% frá maí í fyrra, má vera að uppsöfnuð þörf hafi þar ráðið einhverju. Tollfrjáls verslun var eini flokkur verslunar sem dróst saman í tölfræði Rannsóknasetursins, um ríflega 97%. Kortavelta snyrti- og heilsutengdrar þjónustu, líkt og hárgreiðslustofa jókst um 88% frá maí í fyrra. Þetta þarf ekki að koma á óvart enda byrjuðu margir maímánuð ósnyrtir og með sítt hár eftir lokun þjónustu af þessu tagi síðustu misseri. Að sama skapi glæddist yfir ýmsum öðrum þjónustuflokkum hvar starfsemi hafði að mestu legið í dvala frá miðjum mars til maíbyrjunar, talnaefnið má nálgast hér.

11 views

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page