Umsvif Íslendinga í erlendri netverslun voru mikið til umfjöllunar á liðnu ári. Nú hefur Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) birt nýjar tölur fyrir janúar ásamt endurreiknuðum tölum frá fyrri tímabilum.
RSV fær mánaðarlega gögn frá tollinum um umfang erlendrar netverslunar en vegna villu í gögnum sem bárust tollinum frá flutningsfyrirtæki voru áður birtar tölur umtalsvert hærri en nýbirtar lagfærðar tölur.
Gögnin má nálgast á áskriftarvef RSV, veltan.is en meðal þess sem sjá má er mikil aukning í netverslun á síðasta ársfjórðungi ársins. Aldrei áður hefur netverslun Íslendinga verið jafn mikil og í desember s.l. en þá nam hún rétt tæpum 3,5 milljörðum. Mikill stígandi var í erlendu netversluninni frá október fram til desember en mikið hefur verið rætt um að jólaverslun sé að færast framar vegna afsláttardaga október og nóvember. Þegar tölur janúarmánaðar eru svo skoðaðar má sjá lækkun frá fyrri mánuðum en þó rúmum hálfum milljarði hærri en í janúar 2023.
