Það fór líklega ekki framhjá mörgum þegar strangasta hluta samkomubannsins var aflétt þann 4. maí síðastliðinn. Afléttingin náði til ýmissa þjónustugreina sem höfðu þurft að leggja niður starfsemi vikurnar á undan. Þannig máttu, svo dæmi séu nefnd hárgreiðslustofur, snyrtistofur, tannlæknastofur, sjúkraþjálfarar og nuddarar opna dyr sínar á nýjan leik. Þegar rýnt er í innlenda kortaveltu eftir dögum má sjá að landsmenn tóku opnunum fagnandi enda margir voru orðnir áfjáðir í að komast á nýjan leik í klippingu, sjúkraþjálfun og álíka. Þjónustufyrirtæki hafa almennt farið verr út úr COVID-ástandinu en verslanir ef miðað er við greiðslukortatölfræði Rannsóknasetursins. Raunar sýndu innlendar kortatölur fyrir aprílmánuð 11% aukningu innlendrar kortaveltu í verslunum frá sama mánuði í fyrra á meðan mikill samdráttur var í kortaveltu þjónustufyrirtækja. Myndin að neðan sýnir kortaveltu Íslendinga innanlands eftir dögum frá 1. apríl til 20. maí. Inn á myndina er einnig teiknuð meðaltalskortavelta á dag fyrir tímabilin frá 1. apríl til 3. maí annars vegar og frá 4. til 20. maí hins vegar.
Dagleg meðalvelta innlendra korta hérlendis hækkaði miðað við þetta um 43% á milli tímabilanna tveggja, fyrir og eftir afléttinguna 4. maí. Veltan þessa fyrstu 17 daga eftir afléttingu ströngustu takmarkana var þá jafnan um 15% hærri en dagleg meðalvelta innlendra korta í maí í fyrra. Hafa ber í huga að maí er jafnan veltuhærri mánuður en apríl en einnig að tölurnar eru á nafnvirði.