Við hjá Rannsóknasetri verslunarinnar (RSV) endurvekjum nú og birtum spá um jólaverslun ársins en verkefnið hefur legið í dvala frá árinu 2016. Spá um jólagjöf ársins verður einnig endurvakin í ár og verður hún tilkynnt þann 15. desember nk.
Áfram horfur á góðri jólaverslun í ár
Mikið hefur verið rætt um áhrif kórónaveirufaraldursins á efnahagslíf í landinu undanfarið og þá ekki síst þegar kemur að verslun. Heildarvelta í smásöluverslun tók stökk árið 2020 þegar aukning hennar nam 17,4% á milli ára yfir jólamánuðina, nóvember og desember. Til samanburðar hefur jólavelta frá árinu 2008 mest hækkað um 7,9%, það var árið 2011.
Áhrif faraldursins á innlenda verslun hafa ótvírætt verið jákvæð í lang flestum tilfellum og full ástæða er til að fylgjast vel með þróuninni áfram. Það er því ekki úr vegi að við endurvekjum spá RSV um jólaverslun ársins.
Þrátt fyrir að spáin í ár geri ekki ráð fyrir að jólaverslun taki stökk, líkt og í fyrra, gerir hún ráð fyrir aukningu í innlendri verslun. Það er mat RSV að horfur séu áfram á góðri jólaverslun í ár. Verðhækkanir, vöruskortur og vandræði tengd faraldrinum munu þó líklega hafa þær afleiðingar að aukningin verður minni en ella.
Hver Íslendingur ver að jafnaði tæplega 60.000 kr. til jólainnkaupa
Það er spá RSV að velta smásöluverslunar yfir jólamánuðina, nóvember og desember, aukist að nafnvirði um 3,86% frá fyrra ári en aukningin var tæp 17,4% í fyrra þegar samkomu- og ferðatakmarkanir vegna kórónaveirufaraldursins voru alsráðandi.
Áætlað er að heildarvelta smásöluverslana verði í ár tæpir 115 milljarðar kr. yfir jólamánuðina, tæpum 5 milljörðum hærri en í fyrra á breytilegu verðlagi. Í ár gerir RSV ráð fyrir að verðlag í nóvember og desember verði 3,76% hærra en á sama tíma í fyrra. Að raunvirði aukist veltan því um 0,1% frá fyrra ári.
Spá RSV gerir ráð fyrir því að verslun yfir jólamánuðina verði 59.715 kr. meiri á mann miðað við aðra mánuði ársins, sem gera rúmlega 238.800 kr. fyrir fjögurra manna fjölskyldu.
Skýrslu RSV um Jólaverslun 2021 má nálgast hér.
Nánari upplýsingar veitir
Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir
Forstöðumaður RSV
sigrun@rsv.is
s: 533 3530
Comments