Heildar greiðslukortavelta* í september sl. nam tæpum 94 milljörðum kr. Veltan dróst saman um 7,1% á milli mánaða en jókst um 32,5% samanborið við september 2020. Ferðahugur landans eftir afléttingu kórónaveiruhafta kemur skýrt fram í september gögnum RSV um innlenda kortaveltu. Erlend kortavelta nam rúmum 18,5 milljörðum kr. í september sl. og dróst saman um 24% á milli mánaða.
Kortavelta Íslendinga hérlendis
Heildar kortavelta Íslendinga hérlendis nam 75,4 milljörðum kr. í september sl., 10,1% hærri en í september í fyrra og 20% hærri en í september 2019. Veltan dróst þó saman um 2% á milli mánaða. Velta skiptist nokkuð jafnt á milli verslunar og þjónustu, 54,1% kortaveltu Íslendinga hérlendis fóru í verslun og 45,9% í þjónustu.
Skýrt merki þess að Íslendingar eru aftur farnir að ferðast um heiminn, með viðkomu í flugstöðinni, er velta með tollfrjálsa verslun en hún nam rúmum 352 milljónum kr. í september sl. sem er næstum fjórföld aukning frá fyrra ári þegar ferðalög voru í lágmarki. Velta með tollfrjálsa verslun Íslendinga hérlendis er þó enn 50% lægri en hún var í september 2019. Ferðahugur landans er greinilega mikill nú þegar loksins sér fyrir endann á kórónuveirufaraldrinum því innlend kortavelta í flokknum Ferðaskrifstofur og skipulagðar ferðir jókst um 63% á milli mánaða og rúmlega tífaldaðist á milli ára, svo líklegt er að margir stefni á ferðalög. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þróun veltu með tollfrjálsa verslun næstu mánuðina.
Samdráttur í verslunartengdri veltu nam 4,38% á milli mánaða á meðan þjónustutengd velta jókst um tæpt 1%. Mestur er samdrátturinn á milli mánaða í veltu byggingavöruverslunar, 12,2%, og veltu verslunar með raf- og heimilistæki, 11,7%. Þrátt fyrir samdrátt í verslunartengdri veltu jókst velta í fataverslun um rúm 8% á milli mánaða og um tæp 6,5% ef miðað er við septemberveltu frá því í fyrra.
Innlend kortavelta á netinu
Þrátt fyrir að samdráttur hafi mælst í innlendri kortaveltu í heild mælist 2,7% aukning í innlendri kortaveltu á netinu. 25% aukning er í innlendri kortaveltu á netinu á milli ára. Innlend verslun á netinu hefur aukist um tæp 170% ef horft er til september 2019.
Myndin sýnir hlutfall valdra flokka verslunar á netinu af heildarverslun, í viðkomandi flokki, með innlendum greiðslukortum innanlands. 47,8% af kortaveltu í bóka-, blaða- og hljómplötuverslun fer fram á netinu á meðan einungis 4,16% af kortaveltu í stórmörkuðum og dagvöruverslun fer fram á netinu. 14,3% heildar kortaveltu með innlendum greiðslukortum innanlands fer fram á netinu.
Innlend fataverslun á netinu
Undanfarið hefur verið uppi mikil umræða um fataverslun á netinu og öfluga innreið erlendra aðila á markaðinn. RSV vinnur nú að kortlagningu og gagnaöflun er varðar netverslun landans erlendis frá en á meðan getum við skoðað innlenda fataverslun á netinu út frá kortaveltu, en hana má sjá hér á næstu mynd. Í september sl. nam innlend fataverslun á netinu rúmum 276 milljónum kr. og var 7,9% af heildarkortaveltu í fataverslun þann mánuðinn.
Kortavelta erlendra ferðamanna
Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 19,7% í september sl. en sama hlutfall var 3,4% í fyrra og 25,8% í september 2019. Erlend kortavelta dróst saman um 24% milli mánaða og nam rúmum 18,5 milljörðum kr. í september sl.
Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru enn ábyrgir fyrir stærstum hluta erlendrar kortaveltu hér á landi eða 38% miðað við veltuna í september sl. Velta á milli mánaða jókst á greiðslukortum sem gefin eru út í Kanada, um 20%, en dróst saman fyrir önnur lönd.
Frekari upplýsingar má finna hér.
Um gögnin
Upplýsingar byggðar á kortaveltugögnum frá færsluhirðum, nánar tiltekið Valitor, Borgun/SaltPay, Kortaþjónustan/Rapyd og Netgíró. Gögnin koma frá færsluhirðum niðurbrotin á verslun og vefverslun.
Gögnin innhalda ekki einkaneyslulán (raðgreiðslur, yfirdráttur o.þ.h).
Tímabilið er almanaksmánuðir (ekki hefðbundið kortatímabil).
Gögnin innhalda bæði debet og kreditkort, einstaklinga og fyrirtækja (Fyrirtækjakort c.a. 8% af veltunni fyrir árið 2020).
Gögnin sýna þróun á breytilegu verðlagi.
Nánari upplýsingar veitir
Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir
Forstöðumaður RSV
sigrun@rsv.is
S: 822-1417
*Samanlögð innlend og erlend kortavelta í flokkunum verslun, þjónusta, opinber gjöld og úttektir á reiðufé