top of page

Jólagjöf ársins valin



Jólagjöf ársins 2024

Eitt af árlegum verkefnum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) er val á jólagjöf ársins. Tilgangur verkefnisins er að greina hluta af neysluhegðun landans í aðdraganda jóla og vekja athygli á verslun í landinu. Verkefnið hefur vakið mikla lukku og mikil spurn er eftir vali hvers árs. Verkefnið fór, líkt og fyrri ár, þannig fram í ár að upplýsinga var aflað frá neytendum og verslunum um vinsælar sérvörur í aðdraganda jóla. Rýnihópur RSV kom svo saman seinnihluta nóvember og valdi jólagjöf ársins. Nánar má lesa um forsendur og framkvæmdina í lok skýrslunnar.

Upplýsinga frá neytendum var aflað með netkönnun, en könnunarhópur þekkingarfyrirtækisins Prósent var spurður „Hversu hárri upphæð áætlar þú að verja í jólagjafir í ár?“ og „Hvað langar þig helst að fá í jólagjöf í ár?“. Ýmislegt var nefnt í svörum neytenda, allt frá hefðbundnum hörðum og mjúkum pökkum yfir í  óefnislegar gjafir tengdar ást, gleði, hamingju, frið og heilsu. 2% svarenda óskuðu sér góðrar ríkisstjórnar og stjórnmálamanna. Hinn alræmdi AirFryer, sem lesendur muna eflaust eftir úr skýrslum RSV um jólagjöf ársins frá fyrri árum, sést enn á óskalistum fáeinna en fer þó hratt niður listann.

Jólagjöf ársins 2023 voru samverustundir en þær náðu ekki hátt á lista ársins í ár og vill landinn hefðbundnari pakka í ár. 2022 voru jólagjafir ársins Íslensk spil og bækur sem kom ekki á óvart í kjölfar faraldurs sem einkenndist af síendurteknum samkomubönnum.


„Hversu hárri upphæð áætlar þú að verja í jólagjafir í ár?“

Íslendingar ætla að eyða 101.467 kr í jólagjafainnkaup í ár skv. könnun Prósent. Er það svipuð upphæð og í fyrra þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi en ívið lægra en árin 2021 og 2022.

Þegar horft er til ólíkra svara kynjanna virðast karlar sveiflast mun meira í jólagjafakaupum en konur eru líklegri til þess að áætla sömu eða sambærilega upphæð milli ára. Búseta svarenda hefur einnig áhrif þar sem íbúar landsbyggðarinnar áætla að eyða meiru en íbúar höfuðborgarsvæðisins í jólagjafakaup í ár sem er í samræmi við síðustu ár.




Jólagjöf ársins 2024 er allt fyrir pizzagerðina

Áberandi samhljómur var í umræðu hópsins og þeim hugmyndum sem fram komu um jólagjöf ársins. Jólagjöfin sameini fjölskylduna í samveru við gerð „föstudagspizzunnar“ og sé afar nytsamleg. Ekki einskorðist jólagjöfin heldur við einn hlut heldur geti hver og einn sniðið hana að sínum fjárhag og hægt sé að finna fylgihluti fyrir pizzagerðina í öllum verðflokkum. Tíðarandinn virðist kalla á aukið notagildi jólagjafa og  einkenndust tillögur rýnihópsins að jólagjöf ársins af auknu notagildi fyrir alla fjölskylduna, aukinni samveru og fjölbreytni í verði.

Allt fyrir pizzagerðina sameinar vel flokkana raf- og heimilistæki, hluti fyrir heimilið og samveru og er því jólagjöf ársins 2024 að mati Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Aðrar gjafir sem komust á lista voru meðal annars snjallúr og hefðbundin úr, hártæki og ísvélar.

Umræður rýnihóps RSV fóru þannig fram að rannsóknarspurningin „Hver er jólagjöf ársins?“ var lögð fram í upphafi fundar ásamt þeim forsendum sem liggja áttu til grundvallar við svörun. Rýnihópur var ekki upplýstur um niðurstöður netkönnunar Prósent né um upplýsingar frá verslunum fyrr en um miðbik fundarins þegar umræður voru komnar vel á veg. Þannig tókst að heyra ólíkar skoðanir frá mismunandi sjónarhornum og skoða mismunandi viðhorf og reynslu án þess að umræða hópsins væri lituð af fyrirfram gefnum hugmyndum.

 

 

 Aðrar niðurstöður

Þegar svörin við skoðanakönnun Prósent voru greind út frá lýðfræðibreytum mátti sjá nokkurn mun milli flokka svarenda en svörin voru meðal annars greind út frá kyni, búsetu og aldri.

Karlar voru tvöfalt líklegri til þess að óska sér ástar, gleði, hamingju og friðar en konur, ásamt því sem þeir voru helmingi líklegri til þess að óska sér bóka í ár. Konur vildu fremur fatnað og fylgihluti en karlar ásamt því að vera líklegri til þess að óska sér raf- og heimilistækja.

Mikill munur er á óskalistanum eftir ólíkum aldurshópum. Yngsti hópurinn 18-24 ára óskaði sér helst fatnaðar og fylgihluta eða raf- og heimilistækja. Þess má geta að þau vildu ekki heimilistækin heldur raftækjahlutann af þeim flokki. Aldurshópurinn 25-34 ára óskaði sér einnig fatnaðar og fylgihluta, raf- og heimilistækja en einnig er hópurinn hrifinn af ýmiskonar gjafabréfum og upplifunum.Það sama má segja um 35-44 ára en þau voru þó nokkuð nægjusamari en yngri hóparnir og vildu tvöfalt frekar fá ást, gleði og hamingju í jólagjöf.Þegar komið var í aldurshópinn 45-54 ára dró verulega úr óskum um fatnað og fylgihluti en bókaóskirnar tvöfölduðust.Bókaaukningin næstum tvöfaldaðist svo aftur hjá hópnum 55-64 ára sem einnig var mjög spenntur fyrir gjafabréfum og upplifunum og var einnig sá hópur sem helst óskaði sér hamingju, gleði og friðar.Mestu bókaunnendurnir voru svo úr hópi 65 ára þar sem 19% settu bækur helst á óskalistann en jafn stórt hlutfall óskaði sér einnig gleði hamingju og friðar.


Ekkert fótanuddtæki í ár

Fjölbreytnin í vali Íslendinga í ár virðist ætla sjá til þess að jólagjöfin í ár verði ekki allsráðandi eins og fótanuddtækið víðfræga, nuddbyssan eða airfryer loftsteikingapotturinn hér um árin, heldur verði pakkarnir í ár ólíkir að stærð og lögun.

 

2024 Allt fyrir pizzagerðina

2023 Samverustundir

2022 Íslenskar bækur og spil

2021 Jogging gallinn

2015 Þráðlausir hátalarar eða heyrnartó

l2014 Nytjalist

2013 Lífstílsbók

2012 Íslensk tónlist

2011 Spjaldtölva

2010 Íslensk lopapeysa

2009 Jákvæð upplifun

2008 Íslensk hönnun

2007 GPS staðsetningatæki

2006 Ávaxta- og grænmetispressa




Aðferðafræðin

Netkönnun meðal könnunarhóps Prósents fór fram dagana 8.-20. nóvember sl. 1.387 svör bárust frá 18 ára og eldri sem samsvaraði 52% svarhlutfalli.

Til þess að fá upplýsingar um hvaða vörur seljast best leituðum við til forsvarsmanna verslana í landinu og óskuðum eftir upplýsingum um mest seldu sérvörur á viku tímabili í nóvember. Gagnaöflun fór fram í gegnum tölvupóst og vefform frá 15-21. nóvember. Úr upplýsingum frá verslunum var útbúið gagnasafn sem rýnihópur hafði m.a. til hliðsjónar í umræðum sínum.

Rýnihópur RSV er skipaður fulltrúum verslunarsvæða/verslunarmiðstöðva, markaðsstjórum sem og fulltrúa neytenda. Forsendur rýnihópsins við val á jólagjöf ársins voru eftirfarandi:

• Vara sem er vinsæl meðal neytenda• Vara sem selst vel• Vara sem fellur vel að tíðarandanum

 

430 views
bottom of page