top of page

Áreiðanleiki gagna og mikilvægi samstarfs við færsluhirða.

Gagnasöfnun rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir Veltuna byggir á sjálfviljugri þátttöku færsluhirða sem starfa á íslenskum markaði. Þar sem RSV er ekki opinber aðili hefur setrið engan lagalegan rétt að krefja færsluhirða um gögn en hefur í gegnum árin átt í góðu samstarfi við þau fyrirtæki sem hér hafa starfað.


Á síðustu misserum hefur fjöldi fyrirtækja í færsluhirðingu aukist mjög og hefur verið unnið að því hörðum höndum að kortleggja þá aðila og fá til samstarfs. Það hefur því miður ekki gengið eins og við hefðum viljað. Íslenskir aðilar hafa verið til í samtalið en einnig eru erlendir aðilar sem hefur verið erfiðara að sannfæra að afhenda okkur gögn en sú vinna stendur enn yfir. Við höfum borið okkur saman við Seðlabanka Íslands (SÍ) þegar kemur að þeim tölum sem þeir hafa gefið út síðastliðin ár og hefur verið fylgni í þeirra gögnum og okkar og því afar erfitt að áætla stærð þess markaðar sem við höfum ekki enn náð til.


Þróun greiðslumiðlunarfyrirtækja hefur verið mikil og hröð með áhrif á framþróun í tækni, breyttum neytendavenjum, og aukinni samkeppni á markaði. Greiðslumiðlunarfyrirtæki eru einnig að þróa alþjóðlegar greiðslulausnir sem gera fyrirtækjum kleift að sinna viðskiptum án landamæra. Þetta hefur aukið líkur á að fyrirtæki geti náð til nýrra markaða og minnkað flækjustig í innlendri og alþjóðlegri verslun. Þessi þróun hefur gert okkur erfiðara fyrir. Það sýnir í raun enn frekar mikilvægi þess að haldið sé utan um þessi gögn og þau birt til þess að íslensk verslun og þjónusta hafi leiðir til þess að meta stöðu sína á íslenskum markaði með tilliti til erlendra aðila. Þessar upplýsingar eru svo ekki síður nýttar af einstaklingum og stofnunum til þess að komast í gott safn áreiðanlegra gagna um þennan stóra útgjaldalið sem verslun og þjónusta er.


Í byrjun sumar hættu að berast gögn frá einum af stærri færsluhirðunum hér á landi og þá sást mikil skekkja þegar gögnin voru stemmd af við tölur Seðlabankans og var því gert hlé á birtingu gagna hjá RSV þar til náð hefur verið utan um aðila í færsluhirðingu á landinu. Stjórn RSV sendi í byrjun júlí beiðni til Seðlabankans þar sem óskað er eftir gögnum beint frá SÍ til þess að tryggja enn betur áreiðanleika gagna. Erum við vongóð um að fá svör þaðan fljótlega og vonandi gögn í kjölfarið.


 Það er RSV mjög mikilvægt að trúverðugleiki gagna sé til staðar og erum við búin að vinna í breytingum á þessu ári til að reyna okkar besta við að tryggja það og munum við halda því áfram. Við teljum nauðsynlegt að Ísland sé ekki eftirbátur annara Evrópuþjóða þegar kemur að því að safna, greina og birta gögn um stóra pósta í hagkerfinu og gott aðgengi að upplýsingum.

41 views

Comments


bottom of page