Heildar greiðslukortavelta* í janúar sl. nam rúmum 73 milljörðum kr. og jókst um 12,2% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Mikil aukning hefur verið í kortaveltu í verslun á netinu sl. tvö ár en hlutfall veltu í netverslun af heildarveltu er þó enn lágt í flestum flokkum verslunar.
Kortavelta Íslendinga hérlendis
Heildar kortavelta Íslendinga hérlendis nam rúmum 66 milljörðum kr. í janúar sl. og jókst um 3,4% á milli ára miðað við breytilegt verðlag.
Hlutfall kortaveltu skiptist þannig að 57% kortaveltu Íslendinga hérlendis fóru í verslun og 43% í þjónustu. Samdráttur í verslunartengdri veltu nam 34,4% á milli mánaða á meðan þjónustutengd velta dróst saman um rúm 19,3%. Um er að ræða hefðbundinn árstíðabundinn samdrátt frá desember til janúar ár hvert. Mestur var samdráttur á milli mánaða í veltu gjafa- og minjagripaverslana 67,2%, fataverslana 59,5% og bóka, blaða og hljómplötuverslana 43,6%. Samdráttur var á milli ára í öllum flokkum verslunar nema í lyfja-, heilsu- og snyrtivöruverslunum og stórmörkunum og dagvöruverslunum en þar var aukning um 7,2% og 3,5% á milli janúar 2021 og 2022 miðað við breytilegt verðlag.
Innlend kortavelta á netinu
Innlend kortavelta á netinu nam rúmum 11,3 milljörðum kr. í janúar sl. og jókst hún um tæp 22% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Innlend kortavelta í verslun á netinu (netverslun) jókst um 25% á milli ára og hefur aukist um tæp 200% ef horft er til janúar 2020.
Hlutfall veltu í netverslun af heildarveltu í verslun er þó ekki hátt og eflaust liggja tækifæri á þeim markaði. Í janúar sl. fóru 9,3% af innlendri kortaveltu í verslun fram á netinu. 29,7% af kortaveltu í bóka-, blaða- og hljómplötuverslun fór fram á netinu í janúar og 12,8% af veltu í fataverslun. En einungis 5,4% af kortaveltu í stórmörkuðum og dagvöruverslun fór fram á netinu í síðasta mánuði.
Kortavelta erlendra ferðamanna
Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 9,9% í janúar sl. en sama hlutfall var 2,2% í fyrra og 18,6% í janúar 2020. Erlend kortavelta dróst saman um 19% milli mánaða þrátt fyrir fjölgun ferðamanna, en brottfarir ferðamanna um Keflavíkurflugvöll jukust um 5,2% á sama tíma. Erlend kortavelta nam tæpum 7,3 milljörðum kr. í janúar sl.
Frekara talnaefni aðgengilegt hér. Um gögnin
Upplýsingar byggðar á kortaveltugögnum frá færsluhirðum, nánar tiltekið Valitor, Borgun/SaltPay, Kortaþjónustan/Rapyd og Netgíró. Gögnin koma frá færsluhirðum niðurbrotin á verslun og vefverslun.
Gögnin innhalda ekki einkaneyslulán (raðgreiðslur, yfirdráttur o.þ.h).
Tímabilið er almanaksmánuðir (ekki hefðbundið kortatímabil).
Gögnin innhalda bæði debet og kreditkort, einstaklinga og fyrirtækja (Fyrirtækjakort c.a. 8% af veltunni fyrir árið 2020).
Gögnin sýna þróun á breytilegu verðlagi.
Nánari upplýsingar veitir
Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir
Forstöðumaður RSV
sigrun@rsv.is
S: 533-3530
*Samanlögð innlend og erlend kortavelta í flokkunum verslun, þjónusta, opinber gjöld og úttektir á reiðufé