top of page

Jólatónleikar að toppa?

Heildar greiðslukortavelta* í október sl. nam rúmum 94 milljörðum kr. Veltan stóð nánast í stað á milli mánaða en jókst um 35% samanborið við október 2020. Sprenging er á milli ára í innlendri kortaveltu tengdri tónleikum, leikhúsi, kvikmyndasýningum og viðburðum.


Kortavelta Íslendinga hérlendis


Heildar kortavelta Íslendinga hérlendis nam 79,6 milljörðum kr. í október sl., 16,9% hærri en í október í fyrra og 20,1% hærri en í október 2019. Veltan jókst um 6% á milli mánaða. Velta skiptist nokkuð jafnt á milli verslunar og þjónustu, 54% kortaveltu Íslendinga hérlendis fóru í verslun og 46% í þjónustu.


Sprenging er á milli ára í innlendri kortaveltu tengdri tónleikum, leikhúsi, kvikmyndasýningum og viðburðum. Velta í flokknum nam 1.089 milljónum kr. í október sl. samanborið við 61 milljón kr. á sama tíma í fyrra, þegar samkomutakmarkanir vegna kórónaveirufaraldursins voru í hávegum hafðar. Skv. frétt mbl.is frá 5. október sl. er framboð jólatónleika í ár svipað og í venjulegu árferði. Miðasala á jólatónleika hefur venjulega hafist í byrjun september en fór seinna af stað í ár þegar miðasala á vinsælustu jólatónleikana hófst í byrjun október. Þegar kortavelta er skoðuð m.t.t. miðasölu á tónleika og aðra viðburði má sjá skýrt jólatónleika trend með tilheyrandi toppum í kring um september ár hvert. Miðað við innlenda kortaveltu bendir allt til að miðasala á jólatónleika hafi aftur náð sér á strik eftir mikinn skell árið á undan, en eins og næsta mynd sýnir var velta í flokknum nánast enginn þegar samkomutakmarkanir stóðu sem hæst í apríl og nóvember 2020 en er nú að nálgast toppinn frá september 2018.




Í október höldum við áfram að fylgjast sérstaklega með innlendri kortaveltu í ferðatengdum flokkum. Þó að velta í flokknum Ferðaskrifstofur og skipulagðar ferðir hafi dregist saman um rúm 17% á milli mánaða er velta í flokknum rúmlega tífalt hærri en hún var á sama tíma í fyrra og rúmlega 1% hærri en hún var árið 2019. Ferðahugur landans er því greinilega mikill. Velta með tollfrjálsa verslun jókst um 48,5% á milli mánaða og nam rúmum 523 milljónum kr. í október sl. Sem er næstum sjöföld aukning frá fyrra ári þegar ferðalög voru í lágmarki sökum faraldursins.



Verslunartengd kortavelta jókst um 5,53% á milli mánaða á meðan þjónustutengd kortavelta jókst um 5,7%. Á eftir aukningu með tollfrjálsa verslun var mest aukningin á milli mánaða í veltu verslunar með gjafavöru og minjagripi, 21,4% sem líklega má rekja til árstíðarbundinnar jólagjafavertíðar. 24% af veltu verslunar með gjafavöru og minjagripi fór fram í gegnum netverslun.


Kortavelta erlendra ferðamanna


Kortavelta erlendra ferðamanna var 15,6% af heildarkortaveltu í október sl. en sama hlutfall var 20,5% í október 2019 sem er síðasti venjulegi október mánuður fyrir kórónaveirufaraldur. Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis var rúmlega sjöfalt hærri í október sl. en sama í mánuði í fyrra. Árstíðabundinn samdrátt mátti þó greina á milli mánaða en kortavelta erlendra ferðamanna dróst saman um 21%, eða tæpa 3,8 milljarða, ef miðað er við september sl.


Eftir ábendingu frá Ferðamálastofu um að ferðamönnum frá Ísrael færi fjölgandi var ákveðið að bæta gögnum fyrir kort sem gefin eru út í Ísrael inn í safnið Mánaðarleg kortavelta erlendra ferðamanna eftir þjóðerni. Þær upplýsingar má nú finna hér.


Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru enn ábyrgir fyrir stærstum hluta erlendrar kortaveltu hér á landi eða 36,3% miðað við veltuna í október sl.



Frekari upplýsingar má finna hér.

Um gögnin

  • Upplýsingar byggðar á kortaveltugögnum frá færsluhirðum, nánar tiltekið Valitor, Borgun/SaltPay, Kortaþjónustan/Rapyd og Netgíró. Gögnin koma frá færsluhirðum niðurbrotin á verslun og vefverslun.

  • Gögnin innhalda ekki einkaneyslulán (raðgreiðslur, yfirdráttur o.þ.h).

  • Tímabilið er almanaksmánuðir (ekki hefðbundið kortatímabil).

  • Gögnin innhalda bæði debet og kreditkort, einstaklinga og fyrirtækja (Fyrirtækjakort c.a. 8% af veltunni fyrir árið 2020).

  • Gögnin sýna þróun á breytilegu verðlagi.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir Forstöðumaður RSV sigrun@rsv.is S: 822-1417 *Samanlögð innlend og erlend kortavelta í flokkunum verslun, þjónusta, opinber gjöld og úttektir á reiðufé


81 views

Úttekt á kortaveltugögnunum

Rannsóknasetur verslunarinnar fór í ítarlega útttekt á kortaveltugögnunum sínum til þess að tryggja áframhaldandi gæði gagnanna og urðu nokkrar minniháttar breytingar á gögnunum fyrir árið 2023. RSV á

bottom of page