top of page

Rannsóknasetur verslunarinnar og Smartgo í samstarf um rannsóknir á markaði notaðra vara

Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) og tæknifyrirtækið Smartgo hafa gert með sér samstarfssamning um rannsóknir á hringrásarverslunum og umboðsöluverslunum á Íslandi.


Smartgo er leiðandi í þróun hugbúnaðar sem styður rekstur hringrásarverslana og umboðsöluverslana, og mun veita RSV nauðsynleg gögn til kortlagningar á umfangi markaðar með notaðar vörur hér á landi.


Í fyrsta sinn verður unnið markvisst að því að safna saman og greina gögn um viðskipti með notaðar vörur á Íslandi. Slíkar upplýsingar skipta miklu máli til að auka skilning á vaxandi hringrásarhagkerfi, fylgjast með breytingum í neyslumynstri og meta umfang endurnotkunar í verslun.


Samstarfið er liður í markmiðum RSV um að styðja stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs með áreiðanlegum gögnum. Þá hyggst Smartgo nýta samstarfið til að undirstrika mikilvægi tæknilausna við söfnun og úrvinnslu gagna á sviði hringrásarhagkerfisins og til að þróa lausnir sem styrkja rekstrarumhverfi verslana sem byggja á endurnotkun.


„Þetta samstarf gerir okkur kleift að varpa ljósi á markað sem hingað til hefur verið lítt kortlagður,“ segir Klara Símonardóttir, forstöðumaður RSV. „Við teljum að niðurstöðurnar muni skipta miklu máli fyrir bæði opinbera aðila og fyrirtæki sem starfa á þessu sviði.“


Framtíðarsýn Smartgo

Markmið Smartgo er að verða lykilaðili í innviðum hringrásarhagkerfisins með því að bjóða verslunum hugbúnað og lausnir sem einfalda rekstur, auka gagnsæi og stuðla að sjálfbærni. Með því að sameina tækni og rannsóknir vill Smartgo hjálpa fyrirtækjum að nýta gögn til ákvarðanatöku, þróa nýjar leiðir til endurnotkunar og byggja upp traustari markað fyrir notaðar vörur – bæði á Íslandi og erlendis.


ree

 
 
bottom of page