top of page

Breyttar neysluvenjur vegna samkomubanns

Greiðslukortavelta Íslendinga í verslunum innanlands nam 34,7 ma. kr. í apríl og jókst um 11% samanborið við apríl í fyrra. Heildarkortavelta Íslendinga innanlands nam 53,1 ma. kr. og dróst saman um 13,6% að nafnvirði á milli ára. Verslun á netinu tók stórt stökk í aprílmánuði, jókst um 260% á milli ára og var 9% af heildarverslun Íslendinga í mánuðinum.

Aukin heimavera vegna COVID hefur vafalaust ýtt mörgum út í framkvæmdir til heimilisins en kortavelta byggingavöruverslana jókst um þriðjung frá apríl í fyrra og nam alls 2,8 ma. kr. í apríl síðastliðnum.

Það má leiða að því líkur að þörfin fyrir dægradvöl í samkomubanni hafi haft sitt að segja varðandi aukna eftirspurn eftir raftækjum. Velta í flokki raftækja jókst um 42% milli ára, þar af nam velta í netverslun með raftæki 500 m. kr. og jókst að nafnvirði um alls 300% samanborið við fyrra ár. Minna fór fyrir fatakaupum í apríl en fataverslun dróst saman um 28% milli ára. Mikill vöxtur var þó í netverslun með föt en hún jókst um 279% frá apríl í fyrra. Í kaupum á netinu nam velta flokksins 308 m. kr. en tæplega 1,2 ma. kr. í búðum. Mikill samdráttur var í veltu veitingaþjónustu og eldsneytissölu, þar sem hlutfallsleg lækkun í fyrrnefnda flokknum var 42% samanborið við sama mánuð í fyrra. Í eldsneytissölu var samdrátturinn um 31% og minnkuðu eldsneytiskaup um 1,4 ma. kr. á milli ára. Þá sjást áhrif samkomubannsins vel í veltu lækna- og tannlæknaþjónustu sem dróst saman um 76% að nafnvirði milli ára, sem og snyrti- og heilsustarfsemi hvar veltan var 84% lægri nú en í fyrra. Talnaefni

18 views

Comments


bottom of page