top of page

Costco-áhrifin

Fyrr í vikunni birti Emil B. Karlsson, fyrrum forstöðumaður RSV, áhugaverða grein, í tímaritinu Vísbendingu, um áhrif Costco á innlendan dagvörumarkað. Við fengum góðfúslegt leyfi Emils til að birta greinina í heild sinni hér á vef RSV.


Algengt var að talað væri um Costco-áhrifin hér fyrir fimm árum þegar erlendi verslunarrisinn kom til landsins með stormsveipi og breytti öllu landslagi á innlendum dagvörumarkaði. Skoðum hér hver þessi áhrif voru og hvort þau vara enn.


Vegna smæðar íslenska markaðarins er innlend verslun mjög viðkvæm fyrir erlendri samkeppni. Þannig hafði innkoma Costco á íslenskan dagvörumarkað í maí 2017 þær afleiðingar að vöruverð lækkaði, markaðshlutdeild innlendra smásala og heildsala riðlaðist, en það hafði verið stöðugt síðustu áratugina þar á undan. Gripið var til hagræðingar meðal stærstu innlendu verslananna og leitað var leiða til aukinnar útvíkkunar hjá stærstu dagvöruverslanakeðjunum. Verð hlutabréfa í Högum, stærstu verslunarkeðjunni, lækkaði og tveimur verslunarfyrirtækjum var lokað, Kosti og verslunum Víðis. Áhrif Costco náðu ekki síður til heildsölumarkaðarins og jafnvel til innlends iðnaðar eins og drykkjarvöruframleiðenda og framleiðenda heimilispappírs. Á meðan nutu neytendur góðs af lægra vöruverði og nýjum vörumerkjum. Enda sýndi könnun stuttu eftir opnun verslunarinnar að um 40% landsmanna hefðu komið og keypt sér aðildarkort og önnur 40% hugsuðu sér að gera hið sama.


Reynslan af innkomu Costco sýnir að samkeppni á verslunarmarkaði getur haft veruleg áhrif á verslunarmynstrið í okkar litla landi. Þegar ein erlend verslun sem opnuð er í Garðabæ hefur viðlíka umrót í för með sér má draga ályktanir af áhrifum þess að frekari alþjóðleg samkeppni verði á komandi tímum.


Meðal þess sem breyttist með innkomu Costco á markaðinn má nefna:

  • Verðlag á dagvöru lækkaði strax í kjölfar opnunarinnar meira en lengi hafði sést, skv. verðmælingu Hagstofunnar. Í júní, mánuðinum á eftir opnuninni, var verð á dagvöru um 4% lægra en í sama mánuði ári áður og lækkaði um rúmlega 1% frá mánuðinum á undan.

  • Verð á raftækjum lækkaði um tæp 20% í júní samanborið við júní ári áður.

  • Fljótlega kom í ljós að verð á sambærilegum hjólbörðum og Costco seldi lækkaði um allt að helming.

  • Verð á eldsneyti lækkaði og Costco heldur enn aftur af verðlagningu á öðrum bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

  • Costco hafði veruleg áhrif í samkeppni á heildsölumarkaði. Skv. Viðskiptablaðinu fór samanlagður hagnaður heildsala í landinu úr 1,4 milljarði kr. 2016 niður í 141 milljón kr. árið 2017, vegna innkomu Costco á markaðinn. Ýmsir innlendir framleiðendur lentu í vandræðum, t.d. framleiðendur á salernispappír og drykkjarvöru.

  • Litlar verslanir í dreifbýli, sem reknar eru af einstaklingum í heimabyggð, hófu að gera hluta af innkaupum fyrir verslanir sínar hjá Costco.

  • Verslunin Kostur, sem seldi sambærilega amerískar dagvörur og Costco, neyddist til að hætta rekstri.

  • Nýjar vörutegundir komu á markaðinn sem áður þekktust ekki sér hér á landi.

  • Stærstu verslunarkeðjurnar brugðust hart við samkeppninni m.a. með því að færa út kvíarnar. Hagar (sem rekur m.a. Bónus og Hagkaup) keyptu Olís hf. og Festi (sem rekur m.a. Krónuna og Elko) sameinaðist N1. Þá voru þreifingar þessara aðila um að kaupa lyfjaverslanakeðjurnar Lyfju og Lyf og heilsu. Samkeppniseftirlitið hafnaði því að Hagar keyptu Lyfju.

Auk þeirra breytinga sem urðu á verðlagi, vöruframboði og samsetninga þeirra verslana sem fyrir voru á markaði varð önnur og ekki síðri breyting. Sú neikvæða umræða og viðhorf til verslana breyttist að mati undirritaðs. Um langt árabil var umræða um verslun mest á frekar neikvæðum nótum. Algengt stef var að verslanir okruðu á neytendum í skjóli fákeppni og samþjöppunar. Að einhverju leyti virðist þetta hafa verið á rökum reist. Alla vega var borð fyrir báru til verðlækkana með innkomu Costco.


A.m.k. þrjár skýrslur höfðu verið samdar fyrir stjórnvöld vegna hinnar háværu umræðu um þessi mál. Öllum var ætlað að greina orsakir hærra verðlags á matvælum hér á landi en í nágrannalöndunum. Ein skýrslan var samin af Hagfræðistofnun HÍ, önnur af Samkeppnisstofnun og sú þriðja af sérskipaðri nefnd undir forystu Hagstofustjóra. Niðurstöður voru í öllum tilvikum samhljóma. Helstu ástæður hærra vöruverðs hér en í nágrannalöndunum voru innlend vörugjöld, verndartollar, gengissveiflur, flutningskostnaður, að ekki var hægt að nýst sömu stærðarhagkvæmni í innkaupum og nágrannaþjóðirnar vegna smæðar íslenska markaðarins og að einhverju leyti vegna fákeppni á innlendum dagvörumarkaði.


Nú hafa vörugjöld verið aflögð á matvæli, raftæki og fleiri vörur og verndartollar á landbúnaðarvöru að einhverju marki verið rýmkaðir. En ofurtollar á innfluttar landbúnaðarvörur hafa að sögn verið hindrun í vegi þess að erlendar lágvöruverðsverslanir hafa viljað opna hér verslanir auk smæðar íslenska markaðarins.


Nú hafa heyrst raddir þess efnis að velta og vinsældir Costco fari minnkandi og gagnrýnt hefur verið að verð á innlendum dagvörum séu í einhverjum tilvikum ekki ódýrari þar en í hinum lágvöruverðsverslununum, sem getur hugsanlega skýrst af því að innlendir heildsalar og framleiðendur bjóði Bónus og Krónunni lægra verð en Costco.


Þó ég sé að sönnu enginn talsmaður erlendra risa-verslunarkeðja eins og Costco og telji nauðsynlegt að veita versluninni fullt aðhald í verðlagi og rekstri, er að mínu mati óskandi að Costco verslunarkeðjan finni áfram grundvöll til rekstrar hér á landi. Það er bæði til hagsbóta fyrir neytendur, veitir innlendum samkeppnisaðilum aðhald og sýnir vonandi öðrum erlendum lágvöruverðskeðjum að það gengur að reka verslun á Íslandi þó markaðurinn sé lítill.


Emil B. Karlsson

Fyrrum forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar


52 views

Comments


bottom of page