top of page

Stöðugur vöxtur í netverslun í Evrópu

Fyrr í vikunni gáfu Ecommerce Europe, samtök netverslana í Evrópu, og EuroCommerce, samtök smásölu- og heildverslunar í Evrópu, út sína árlegu skýrslu um stöðu netverslunar í Evrópu - EUROPE E-COMMERCE REPORT 2022. Í skýrslunni er fjallað um þróun netverslunar í Evrópu árið 2021 auk þess sem spáð er fyrir um þróunina í ár.


Helstu niðurstöður sýna að netverslun í Evrópu (e. total European e-commerce) hafi aukist um 13% frá 2020 til 2021 eða úr 633 milljörðum Evra (€bn) í 718 milljarða Evra. Höfundar skýrslunnar spá áframhaldandi vexti netverslunar árið 2022 en sjá þó merki um að vöxturinn sé að ná ákveðnum stöðugleika, spáin fyrir 2022 gerir því ráð fyrir 11% aukningu í netverslun eða að hún verði 797 milljarðar Evra árið 2022. Einnig kemur fram að bráðabirgðaniðurstöður úr rannsókn sem nú er verið að vinna fyrir EuroCommerce geri ráð fyrir að netverslun verði orðin um 30% af heildarsmásöluveltu árið 2030.


Þegar staðan á Íslandi er skoðuð í samanburði við önnur Evrópulönd kemur í ljós að Ísland er efst á lista þjóða þegar kemur að hlutfalli einstaklinga sem hafa aðgang að og nota internetið og í sjötta sæti á lista þjóða þegar kemur að hlutfalli einstaklinga sem versla á netinu. En skv. skýrslunni hafa allir Íslendingar aðgang að internetinu og 85% þeirra versla á netinu.

Hlutfall einstaklinga sem versluðu á netinu 6 sinnum eða oftar sl. 3 mánuði er hæst á Íslandi. 61% Íslendinga með aðgang að internetinu versluðu oftar en 6 sinnum á netinu sl. 3 mánuði á Íslandi árið 2021. En 87% Íslendinga sem versla á netinu gerðu það oftar en 3 sinnum sl. 3 mánuði ef horft er til ársins 2021.

Af þeim Íslendingum sem versla á netinu versluðu 79% við innlendar netverslanir, 38% við netverslanir frá öðrum Evrópulöndum, 59% við netverslanir utan Evrópu og 72% frá netverslunum í löndum óháð því hvort þau væru í Evrópu eða ekki.

Ef við horfum til EU-27* landanna þá jókst velta smásöluverslunar á netinu um 16% frá árinu 2020 til 2021. Frá árinu 2017 hefur vöxtur smásöluveltu á netinu í EU-27 löndunum að meðaltali haldist stöðugur í tveggja stafa tölu og gera skýrsluhöfundar ráð fyrir að svo muni áfram verða. Spá skýrsluhöfunda fyrir árið 2022 er að vöxtur veltu smásöluverslunar í netverslun í EU-27 löndunum verði að meðaltali um 10% á þessu ári.


Skýrsluhöfundar sækja gögn um veltu smásöluverslunar á netinu á Íslandi til gagnaveitu fyrirtækisins Statista. Þau gera ráð fyrir að velta smásöluverslunar á netinu á Íslandi hafi aukist um 8% frá 2020 til 2021 eða úr 0,633 milljörðum Evra (€bn) í 0,684 milljarða Evra. Höfundar skýrslunnar gera ráð fyrir 11% aukningu í netverslun á Íslandi í ár eða að hún verði 0,762 milljarðar Evra árið 2022. Gögn RSV um veltu smásöluverslunar á netinu gefa til kynna bæði meiri veltu og vöxt í netverslun á Íslandi. Ekki liggur fyrir hvaðan gögn Statista um veltu á Íslandi koma en RSV hefur sent fyrirspurn þar um.


Nánari upplýsinga um EUROPE E-COMMERCE REPORT 2022 má nálgast hér.


* EU-27 löndin eru: Austurríki, Belgía, Búlgaría, Króatía, Kýpur, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Ítalía, Lettland, Litáen, Lúxemborg, Malta, Holland, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð

110 views

Comments


bottom of page