top of page

Fataverslun áfram mikil í september

Í fyrstu bylgju faraldursins jókst verslun, á mælikvarða kortaveltunnar, í flestum flokkum verslunar. Fataverslun var nánast eini stóri sérvöruflokkurinn sem dróst saman á milli ára í bylgjunni í vor. Innlend kortavelta í flokki fata jókst þónokkuð nú í september eða um 36% frá sama tíma í fyrra. Gott er að hafa í huga að hraður vöxtur í faraldrinum hófst ekki fyrr en upp úr miðjum september og kunna októbertölur því að segja aðra sögu hvað fötin varðar.


Hvað vinnur gegn fataverslun í Kófinu?

Fyrst er til að taka að í samkomubanni eru fá tækifæri til að klæða sig upp. Því kann eftirspurn eftir betri fötum að minnka. Margar fataverslanir eru þröngar, samanborið við sumar annars konar verslunar sem hafa blómstrað, líkt og byggingavöruverslanir. Þá byggir upplýst ákvörðun um fatakaup gjarnan á því að skoða og snerta margt í búðinni áður en ákvörðun er tekin. Allt virkar þetta gegn fataverslunum þegar verstu bylgjurnar ganga yfir.


Fataverslun færðist á netið í fyrstu bylgjunni

Innlend netverslun með föt jókst mikið í vor, á sama tíma og fataverslun í búðum minnkaði verulega. Hæst var hlutfall netverslunar í apríl síðastliðnum eða 21% af heildinni. Rétt er að taka fram að um er að ræða innlenda fataverslun með innlendum greiðslukortum.

Hvernig verður fataverslun í þriðju bylgjunni?

Íslendingar hafa einsett sér að lifa með veirunni og að því er virðist tekið fatabúðirnar aftur í sátt eftir fyrstu bylgjuna, en innlend kortavelta þeirra hefur verið lífleg í sumar. Þá er orðalag sóttvarnaráðstafana með þeim hætti að viðurkennt er að sums staðar verði tveggja metra reglu ekki komið við og búðir teknar sem dæmi (svæði með grímuskyldu). Fataverslanir geta þó ekki reitt sig á uppsafnaða þörf fyrir föt í þriðju bylgjunni en eftir líflegt sumar í fataverslun er uppsöfnuð kortavelta fataverslana fyrstu níu mánuði ársins orðin meiri en á sama tímabili í fyrra.

83 views

Комментарии


Комментарии отключены.
bottom of page