top of page

Spá um jólaverslun 2022

Í dag birtir Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) árlega spá sína um jólaverslun ársins.


Á síðasta ári var mikið rætt um áhrif kórónaveirufaraldursins á verslun í landinu en ótvírætt þykir að áhrif faraldursins á innlenda verslun hafi verið jákvæð. Umræðan í ár hefur aftur snúist um áhrif hörmunga á efnahagslíf og verslun í landinu en stríð Pútíns í Úkraínu hefur haft víðtæk áhrif um allan heim. Verðbólga hér heima hefur aukist á árinu en einnig hefur hún aukist mikið í okkar helstu viðskiptalöndum. Dregið hefur úr kaupmætti launa á árinu auk þess sem væntingar heimila til næstu sex mánaða hafa versnað. Vísitala RSV um smásöluveltu gefur ekki ástæðu til ætla að velta í smásöluverslun, yfir jólamánuðina, muni aukast mikið frá fyrra ári en veltan það sem af er ári hefur ekki aukist umfram verðlag.


Mikill kraftur hefur þó verið í einkaneyslunni í ár en gögn um kortaveltu gefa til kynna að vöxtur hennar sé drifinn áfram af aukinni veltu þjónustutengdrar innlendrar starfsemi og aukinni veltu innlendra greiðslukorta erlendis. Þá hefur töluverð aukning verið í verðmæti innflutnings á varanlegum og hálf varanlegum neysluvörum það sem af er ári auk þess sem gera má ráð fyrir að aukin velta ferðamanna í innlendri verslun á árinu hafi einhver áhrif til hækkunar á jólaverslun ársins.


Von á stöðugleika í jólaverslun í ár

Það er spá RSV að velta smásöluverslunar yfir jólamánuðina, nóvember og desember, aukist að nafnvirði um tæp 4,3% frá fyrra ári en sambærileg aukning var 7,1% í fyrra. Áætlað er að heildarvelta smásöluverslana verði um 123,7 milljarðar kr. yfir jólamánuðina í ár, rúmum 5 milljörðum hærri en í fyrra miðað við breytilegt verðlagi. Að raunvirði dragist veltan þó saman um 1,7% frá fyrra ári.

Hver Íslendingur ver 73.535 kr. til jólainnkaupa

Spá RSV gerir ráð fyrir að verslun yfir jólamánuðina í ár verði 73.535 kr. meiri, á mann, en hún er að jafnaði aðra mánuði ársins. Sem gera tæplega 295.000 kr. fyrir fjögurra manna vísitölufjölskyldu vegna jólahaldsins.


Skýrslu RSV um Jólaverslun 2022 má nálgast hér.


Jólagjöf ársins verður tilkynnt í morgunútvarpi Rásar 2 í fyrramálið. Í kjölfarið verður gefin út skýrsla RSV um Jólagjöf ársins 2022.

Nánari upplýsingar veitir:


Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir

Forstöðumaður RSV

sigrun@rsv.is

s: 533 3530


146 views

Comments


bottom of page