Heildar greiðslukortavelta* hérlendis í nóvember sl. nam rúmum 108,7 milljörðum kr. og jókst um 20,7% á milli ára miðað við breytilegt verðlag.
Gögn RSV um kortaveltu innanlands sýna það ótvírætt að nóvember er netverslunar mánuður ársins. Frá árinu 2017 hefur nóvember verið stærsti mánuður ársins í innlendri netverslun en gögn RSV ná aftur til marsmánaðar það árið. Með tilkomu hinna þekktu afsláttadaga nóvembermánaðar hefur kortavelta á netinu í nóvember aukist til muna.
Alger sprenging varð í netverslun í nóvember árið 2020 og 112,5% aukning var í netverslun á milli október- og nóvembermánaðar í fyrra. Í ár tvöfaldaðist veltan næstum því, en 97% aukning var í netverslun á milli október- og nóvembermánaðar þetta árið. Mest var aukningin í ár í gjafa- og minjagripaverslunum (239%), raf- og heimilistækjaverslunum (225%) og fataverslunum (146%).
Samdráttur varð þó í netverslun á milli ára, en greiðslukortavelta í verslun á netinu var 0,1% minni í nóvember sl. en hún var í sama mánuði í fyrra miðað við breytilegt verðlag. Myndin hér fyrir neðan sýnir ársbreytingu greiðslukortaveltu í netverslun og framlag tegunda verslana til breytingarinnar.
Samdráttur á milli ára var mestur í gjafa- og minjagripaverslunum (-51,8%), lyfja-, heilsu- og snyrtivöruverslunum (-21,2%) og fataverslunum (-16%). Aukning varð á milli ára í netverslun bóka, blaða og hljómplötuverslana, um 8,4%, miðað við breytilegt verðlag. Þá jókst önnur verslun á netinu um 16,7%.
12,6% af allri greiðslukortaveltu í verslun fór í gegnum netið í nóvember sl., en það hlutfall var að meðaltali 7,3% aðra mánuði ársins í ár. Hlutfall netverslunar af heildarveltu í verslun hefur aukist hratt undanfarin ár en árið 2017 var það einungis 2,2%, að meðaltali, á mánuði.
Mánaðarlega samantekt RSV um kortaveltu í nóvember má nálgast hér.
Nánari um greiðslukortaveltu innanlands og aðra tölfræði RSV hér.
Nánari upplýsingar veitir:
Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir
Forstöðumaður RSV
sigrun@rsv.is
S: 533-3530
*Samanlögð innlend og erlend kortavelta í flokkunum verslun, þjónusta, opinber gjöld og úttektir á reiðufé.
Comments