top of page

Bretland leiðandi í netverslun með dagvöru í Evrópu

Nýverið gaf ráðgjafafyrirtækið McKinsey út skýrslu um stöðuna á dagvörumarkaði (e. Grocery Retail) í Evrópu árið 2022 og spáði fyrir um þróun næstu ára.


Í skýrslunni er m.a. fjallað um hlutfall netverslunar með dagvöru (e. Grocery) af dagvörumarkaði. Þar kemur fram að Bretland hafi þar verið leiðandi í fyrra með 12% hlutfall í netverslun, Frakkar komu þar á eftir með 8,6% og því næst Hollendingar og Svíar með 7,5% og 7,3% hlutfall.

Ef svipað hlutfall er skoðað út frá gögnum RSV um kortaveltu kemur í ljós að hlutfall dagvöru sem keypt er í netverslun var tæplega 4,3% á Íslandi árið 2021 ef eingöngu er horft til veltu á dagvörumarkaði. Ef tekinn er inn markaður með heimsendar veitingar líkt og gert er í skilgreiningu McKinsey á Food at home* markaði þá var hlutfallið á Íslandi rúm 5,3% í fyrra. Ísland á því töluvert í land til að teljast leiðandi í netverslun með dagvöru í Evrópu.


Í skýrslu McKinsey er netverslun með dagvöru skipt í tvo flokka; Fyrir fram ákveðna heimsendingu og heimsendingu strax í kjölfar pöntunar. Skv. skýrslunni er stærstur hluti netverslunar með dagvöru fyrir fram ákveðnar heimsendingar í þessum löngum Evrópu og spáin gerir ráð fyrir að þannig verði það áfram árið 2030. Sem dæmi um fyrirkomulag á fyrir fram ákveðnum heimsendingum þá tíðkast það t.d. í London að pöntun sé jafnvel í áskrift og þar af leiðandi gerð töluvert fram í tímann. Netverslun með dagvöru hér á Íslandi er að mati RSV töluvert kvikari og fellur því betur í flokkinn heimending strax í kjölfar pöntunar (þó afhendingar tími verslana geti vissulega verið mislangur).


Netverslun með dagvöru á Íslandi hefur þróast og vaxið gríðarlega frá upphafi Covid heimsfaraldursins. Árið 2019 var hlutfall dagvöru sem keypt er í netverslun á Íslandi innan við 1% (0,95%) og hefur því rúmlega fjórfaldast á veirutímanum.


McKinsey spáir því að með vaxandi væntingum viðskiptavina, aukinni samkeppni og tækniframförum, gæti hlutfall netverslunar með dagvöru orðið allt að 18-30% af matvörumarkaði í þessum leiðandi Evrópulöndum árið 2030. Það verður áhugavert að fylgjast með þróuninni og sjá hvar Ísland verður þar til samanburðar.


Skýrsluna og frekara efni ráðgjafafyrirtækisins má nálgast á vef McKinsey’s hér.


*Food at home market er í skýrslunni skilgreindur sem bæði heimsend matvara og veitingar/skyndibiti. Til viðmiðunar settum við saman úr gögnum RSV hinn íslenska Food at home markað með því að slá saman kortaveltu í flokkunum veitingaþjónusta og stórmarkaðir og dagvöruverslanir.

45 views

Kommentare


bottom of page