Erlend kortavelta eykst nú hratt eftir niðursveiflu kórónuveirufaraldursins en 95% aukning hennar mældist á milli apríl og maí 2021. Aukning erlendrar kortaveltu á milli ára er næstum fjórföld. Innlend kortavelta jókst um 10% á milli ára. Heildar greiðslukortavelta* í maí síðastliðnum nam 86,3 milljörðum kr. og jókst um 23% á milli mánaða og um 15,7% samanborið við maí 2020.
Kortavelta erlendra ferðamanna
Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis var 95% hærri í maí síðastliðnum en hún var í apríl. Kortavelta erlendra ferðamanna var 6,5% af heildarkortaveltu í maí s.l. en í apríl var það hlutfall aðeins 4%. Til samanburðar má geta að sama hlutfall var 22,3% í maí 2019 sem er einmitt síðasti venjulegi maí mánuður fyrir kórónaveirufaraldur.
Erlendir ferðamenn frá Bandaríkjunum eru ábyrgir fyrir 59,8% af allri erlendri kortaveltu hérlendis í maí s.l. Þjóðverjar og Bretar koma næstir með 7% og 6,5%.
Kortavelta Íslendinga hérlendis – Þjónusta
Kortavelta Íslendinga hérlendis var 10% hærri í maí síðastliðnum en í maí í fyrra. Íslendingar kaupa nú gistiþjónustu í auknum mæli, líkt og á sama tíma í fyrra, sem bendir til að Íslendingar stefni aftur á ferðalög innanlands í ár. Aukningin er að mestu í netverslun sem bendir til þess að verið sé að kaupa ferðir fram í tímann. Innlend kortavelta gististaða jókst um 70% á milli ára og nam rúmum 1010 milljónum kr. í maí samanborið við tæpar 600 milljónir kr. í maí 2020. Líklega spila verðhækkanir þó þarna inn í að töluverðu leiti þar sem mikið var um tilboð til heimamanna í fyrra sem ekki verða endurtekin í ár.
Sterkar vísbendingar eru um að viðspyrna sé hafin í þjónustu ferðaskrifstofa og söluaðila með skipulagðar ferðir eftir næstum algjört hrun í kórónaveirufaraldrinum. Bólusetningar hafa gengið vel hér á landi og bjartsýni virðist ríkja þegar kemur að ferðalögum til útlanda. Innlend kortavelta í þjónustu ferðaskrifstofa og söluaðila með skipulagðar ferðir jókst um 48% á milli mánaða og rúmlega þrefaldaðist á milli ára. Hér er aukningin einnig að mestu í netverslun sem bendir til þess að verið sé að kaupa ferðir fram í tímann. Menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi er einnig að lifna við en 58% aukning er á innlendri kortaveltu í þeim lið á milli mánaða. Velta á veitingastöðum fer vaxandi en hún eykst um 36% á milli mánaða og um tæp 80% á milli ára ef horft er á aprílveltu.
Kortavelta Íslendinga hérlendis – Verslun
Áhugavert er að skoða áhrif kórrónaveirufaraldursins á innlenda verslun og netverslun. Kortavelta í áfengisverslunum jókst umtalsvert í faraldrinum en nú þegar samfélagið færist hratt í fyrra horf, með bólusetningum og afléttingum samkomutakmarkana, má merkja samdrátt í þeirri veltu. 7,8% samdráttur var í áfengisverslun í apríl samanborið við fyrra ár og 8,4% samdráttur á milli ára m.v. kortaveltu í maí. Verslun í stórmörkuðum með dagvöru og verslunum með byggingavörur virðist vera að ná jafnvægi eftir töluverða veltu aukningu á tímum faraldursins en kortavelta Íslendinga í stórmörkuðum og dagvöruverslun var 7% meiri en hún var á sama tíma í fyrra og kortavelta Íslendinga í byggingavöruverslunum er 1% meiri en hún var á sama tíma í fyrra.
Greinilegt er að Íslendingar eru aftur farnir að ferðast til útlanda því viðsnúningur er að verða með tollfrjálsa verslun. Kortavelta Íslendinga í tollfrjálsri verslun eykstu um 52% á milli mánaða og um 281% ef litið er til sama tíma í fyrra.
Kortavelta Íslendinga hérlendis – Netverslun
Innlend netverslun hefur sótt í sig veðrið í kórónaveirufaraldrinum en skýrt mynstur má sjá um aukningu í netverslun hjá stórmörkuðum og dagvöruverslunum, lyfja-, heilsu- og snyrtivöruverslunum, raf- og heimilistækjaverslunum, byggingavöruverslunum, fataverslunum og gjafa- og minjagripaverslunum í faraldrinum. Merki eru um að fataverslun, verslun með raf- og heimilistæki og verslun með gjafa- og minjagripi sé aftur að færast af netinu með auknum afléttingum samkomutakmarkana en netverslun virðist ætla að halda velli hjá stórmörkuðum og dagvöruverslunum, lyfja-, heilsu- og snyrtivöruverslunum og byggingarvöruverslunum. Kortavelta Íslendinga í netverslun með byggingarvöru er 76% meiri en hún var á sama tíma í fyrra, þá er kortavelta í netverslun með dagvöru 63% meiri en á sama tíma í fyrra og kortavelta í netverslun með lyf, heilsu- og snyrtivörur 66% meiri en á sama tíma í fyrra. Ekki liggja fyrir upplýsingar um áfengisverslun á netinu.
*Samanlögð innlend og erlend kortavelta í flokkunum verslun, þjónusta, opinber gjöld og úttektir á reiðufé
Um gögnin
Upplýsingar byggðar á kortaveltugögnum frá færsluhirðum, nánar tiltekið Valitor, Borgun, Kortaþjónustan og Netgíró (kortavelta frá Pei og Síminn Pay eru ekki innifalin). Gögnin koma frá færsluhirðum niðurbrotin á verslun og vefverslun.
Gögnin innhalda ekki einkaneyslulán (raðgreiðslur, yfirdráttur o.þ.h).
Tímabilið er almanaksmánuðir (ekki hefðbundið kortatímabil).
Gögnin innhalda bæði debet og kreditkort, einstaklinga og fyrirtækja (Fyrirtækjakort c.a. 8% af veltunni fyrir árið 2020).
Gögnin sýna þróun á breytilegu verðlagi.
Comments