top of page

Jólabragur á kortaveltu í desember

Updated: Feb 10, 2022

Heildar greiðslukortavelta* í desember sl. nam rúmum 101 milljarði kr. Veltan jókst um 12,9% á milli mánaða og um 18,6% samanborið við desember 2020. Innlend kortavelta sýnir jólalega aukningu í innkaupum á matvöru, bókum, fötum og áfengi og jólalega þróun í áskriftar kaupum að miðlum.


Kortavelta Íslendinga hérlendis

Heildar kortavelta Íslendinga hérlendis nam rúmum 92,5 milljörðum kr. í desember sl. og jókst um 16,2% á milli mánaða. Innlend kortavelta í desember sl. var því 10,4% hærri en í desember 2020 og 20,1% hærri en í desember 2019 miðað við breytilegt verðlag.


Hlutfall kortaveltu í verslun jókst enn meira í desember, á kostnað kortaveltu í þjónustu, en veltan skiptist þannig að 62% kortaveltu Íslendinga hérlendis fóru í verslun og 38% í þjónustu, en veltan skiptist að jafnaði nokkuð jafnt á milli verslunar og þjónustu flesta mánuði ársins. Aukning í verslunartengdri veltu nam 22,8% á milli mánaða á meðan þjónustutengd velta jókst um tæp 7%. Greinilegt er að kortavelta desembermánaðar einkennist af jólainnkaupum. Mest var aukningin á milli mánaða í veltu bóka, blaða og hljómplötuverslana 64,5% og í veltu áfengisverslana 63,2%. Fataverslun jókst um 53,6% á milli mánaða og velta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum jókst um 28,2%.


44% aukning var í flokknum Miðlun á milli mánaða og ef flokkurinn er skoðaður sem tímaröð má greina jólalega þróun með toppum í desember og dýfum í janúar ár hvert líkt og myndin hér fyrir neðan sýnir. Líklega stafar þróunin af því að margir kaupa áskrift að hinum ýmsu miðlum til að njóta dagskrár þeirra í aðdraganda jóla og jólafríinu en segja svo áskriftinni aftur upp í janúar.

Kortavelta erlendra ferðamanna

Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 8,8% í desember sl. en sama hlutfall var tæp 2% í fyrra og 14,4% í desember 2019.


Erlend kortavelta dróst saman um 13% á milli mánaða en það er mesti samdráttur sem mælst hefur á milli nóvember og desembermánaðar frá því að RSV hóf gagnasöfnun á kortaveltu erlendra ferðamanna árið 2012. Má leiða að því líkur að samdrátturinn nú sé afleiðing sóttvarnatakmarkana vegna Omicron afbrigðis kórónaveirunnar sem gættir nú um heim allan.

Myndin hér fyrir ofan sýnir breytingu á kortaveltu erlendra ferðamanna á milli nóvember og desembermánaða ár hvert. Sjá má að samdrátturinn nú er fordæmalaus.


Frekara talnaefni aðgengilegt hér.


Um gögnin

  • Upplýsingar byggðar á kortaveltugögnum frá færsluhirðum, nánar tiltekið Valitor, Borgun/SaltPay, Kortaþjónustan/Rapyd og Netgíró. Gögnin koma frá færsluhirðum niðurbrotin á verslun og vefverslun.

  • Gögnin innhalda ekki einkaneyslulán (raðgreiðslur, yfirdráttur o.þ.h).

  • Tímabilið er almanaksmánuðir (ekki hefðbundið kortatímabil).

  • Gögnin innhalda bæði debet og kreditkort, einstaklinga og fyrirtækja (Fyrirtækjakort c.a. 8% af veltunni fyrir árið 2020).

  • Gögnin sýna þróun á breytilegu verðlagi.


Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir Forstöðumaður RSV sigrun@rsv.is S: 533-3530 *Samanlögð innlend og erlend kortavelta í flokkunum verslun, þjónusta, opinber gjöld og úttektir á reiðufé

69 views

Úttekt á kortaveltugögnunum

Rannsóknasetur verslunarinnar fór í ítarlega útttekt á kortaveltugögnunum sínum til þess að tryggja áframhaldandi gæði gagnanna og urðu nokkrar minniháttar breytingar á gögnunum fyrir árið 2023. RSV á

bottom of page