top of page

Mesta jólaverslun frá upphafi mælinga

Heildarkortavelta vex um tæp 9%

Heildarkortavelta Íslendinga hefur aldrei verið hærri en í desember síðastliðnum, alls 83,8 milljarðar sem er aukning um 8,7% frá fyrra ári. Líklegt þykir að miklar takmarkanir á verslunarferðum landans til útlanda hafi hér haft mikil áhrif. Stærstum hluta var varið í verslunum, alls 55,3 milljörðum (eða 66% af heildarveltu) á meðan 28,5 milljörðum var eytt í þjónustu.


Hækkun var á milli ára í flestum flokkum verslunar (mynd 1). Stórmarkaðir og dagvöruverslanir voru sem oftar langstærsti einstaki flokkurinn en þar nam veltan tæpum 22,6 milljörðum og jókst um alls 23% á milli ára. Hlutfallslega hækkaði hinsvegar velta í raf- og heimilistækja verslunum mest eða alls um 41% borið saman við desember 2019 (úr 2,9 millj. Í 4,4 millj). Velta í fataverslunum jókst einnig verulega. Veltan nam alls 5,6 milljörðum og jókst um 22% samanborið við sama tíma í fyrra og 45% milli nóvember og desember 2020.


Mynd 1. Hækkun í helstu flokkum verslunar

Stórmarkaðir og dagvöruverslanir námu 41% af heildarveltu í desember mánuði, og var eins og fyrrnefnt langstærsti flokkurinn. Þar á eftir koma fataverslun 10%, áfengisverslun 8%, raf og heimilisækjaverslanir 7% og byggingavöruverslanir 6%. Vert er að taka það fram að tölurnar er unnar eftir þeim flokki sem hver verslun er skráð, ekki útfrá einstaka vöruflokkum sem seldir eru.


Mynd 2. Hlutfall veltu flokka af heildarverslun

Netverslun tvöfaldast milli ára

Netverslun heldur áfram að vaxa og vó 7,4% allrar verslunar í desember síðastliðnum. Íslendingar versluðu vörur fyrir 4,1 milljarða á netinu í desember sem er rúmlega tvöföld aukning á milli ára (1,5 millj. 2019). Netverslun dróst hinsvegar saman um 46% frá því í nóvember síðastliðnum. Það kemur ekki á óvart þar sem fjölmargir afsláttardagar voru í nóvember og sprenging varð í netverslun. Má áætla að margir hafi þá gripið gæsina og gengið frá jólagjafakaupum.


Velta í netverslun var mest í raf- og heimilistækjaverslunum alls 910 milljónir og jókst um 176% milli ára. Hlutfallslega hækkaði hinsvegar velta í verslunum með heimilisbúnað mest eða alls um 313% borið saman við desember 2019 (Mynd 3). Í fataverslunum jókst netverslun um 115% milli ára (Mynd 3).


Mynd 3. Hækkun í helstu flokkum vefverslunar

Gera má ráð fyrir að sóttvarnaráðstafanir hafi haft þau áhrif að jólaverslun var að miklu leyti framkvæmd í netverslun. Ljóst er að netverslun er að festa sig betur í sessi landans og komin til að vera.


Kortavelta ferðamanna breytist lítið

Líkt og við var að búast dróst kortavelta erlendra ferðamanna mikið saman milli ára, alls -87%, nam veltan alls 1,7 millj. á erlendum kortum. Kortaveltan jókst hinsvegar um rúm 2% samanborið við nóvember síðastliðinn Milli ára í desember lækkaði velta um allt að 97% í öllum flokkum. Þrátt fyrir mjög strangar ferðatakmarkanir var mesta velta á bandarískum og breskum kortum í desember mánuði. Bandarísk kort veltu 456 milljónum (-31% frá nóv.), bresk kort 242 milljónum (+34% frá nóv.) og dönsk kort 184 milljónum (+52% frá nóv.).


Heimild: Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu Íslendinga og ferðamanna, sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs. Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum verslunar og þjónustu.


Nánari upplýsingar veitir:

Edda Blumenstein

Forstöðumaður Rannsóknaseturs Verslunarinnar

247 views

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page