top of page

Net-Nóvember í verslun

Updated: Sep 6, 2022

Hlutfall netverslunar af heildarveltu í verslun jókst um 6,5% á milli mánaða en 13,3% af innlendri kortaveltu í verslun fóru fram í gegnum netið í nóvember sl. Heildar greiðslukortavelta* í nóvember sl. nam tæpum 90 milljörðum kr. Veltan dróst saman um 4,6% á milli mánaða en jókst um 24,2% samanborið við nóvember 2020.


Kortavelta Íslendinga hérlendis

Heildar kortavelta Íslendinga hérlendis nam rúmum 79,5 milljörðum kr. í nóvember sl., 12,6% hærri en í nóvember í fyrra og 18,9% hærri en í nóvember 2019. Veltan stóð þó nánast í stað á milli mánaða. Hlutfall kortaveltu í verslun jókst í nóvember, á kostnað kortaveltu í þjónustu, en veltan skiptist þannig að 59% kortaveltu Íslendinga hérlendis fóru í verslun og 41% í þjónustu, samanborið við 54% í verslun og 46% í þjónustu í október sl.


Aukning í verslunartengdri veltu nam 8,7% á milli mánaða á meðan þjónustutengd velta dróst saman um rúm 10%. Greinilegt er að kortavelta nóvembermánaðar einkennist af jólagjafakaupum. Mest var aukningin á milli mánaða í veltu gjafavöru- og minjagripa verslunar 64,9% og í veltu verslunar með raf- og heimilistæki 52,5%. Velta í verslun með heimilisbúnað jókst um 23,3% á milli mánaða, í bóka, blaða og hljómplötuverslun um 20,2% og velta byggingavöruverslunar jókst um 21,7%. Velta í innlendri fataverslun stóð þó í stað á milli mánaða.


Innlend kortavelta á netinu

Nóvember hefur á síðustu árum orðið að netverslunarmánuði ársins. Frá árinu 2017 hefur nóvember verið stærsti mánuður ársins í innlendri netverslun en gagnasafn RSV um innlenda kortaveltu nær aftur til marsmánaðar það árið. Með tilkomu hinna þekktu afsláttadaga Singles day, Black Friday og Ciber Monday hefur kortavelta Íslendinga á netinu aukist til muna í nóvember. Alger sprenging varð í netverslun í nóvember í fyrra og 112,5% aukning var í netverslun á milli október- og nóvembermánaðar nú í ár.


Hlutfall kortaveltu á netinu af heildar kortaveltu í innlendri verslun hefur einnig verið hæst í nóvembermánuði ár hvert en það hlutfall jókst um 6,5% á milli mánaða í ár og var 13,3% í nóvember sl., samanborið við 16,6% í fyrra.


Gera má ráð fyrir að samkomutakmarkanir vegna kórónaveirufaraldursins sem voru í hávegum hafðar á þessum tíma í fyrra hafi haft mikil áhrif á sprenginguna sem varð í netverslun þá og eflaust gætir þeirra áhrifa enn við að einhverju leiti. Samblanda samkomutakmarkana og afsláttadaganna þriggja útskýrir þessa miklu hækkun í veltu netverslunar í nóvember sl. tvö ár en óvíst er hvor áhrifin vega þyngra.


Kortavelta erlendra ferðamanna

Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 15,6% í nóvember sl. en sama hlutfall var 2,3% í fyrra og 16,4% í nóvember 2019. Erlend kortavelta dróst saman um 30% milli mánaða í takt við fækkun ferðamanna, en brottfarir ferðamanna um Keflavíkurflugvöll drógust saman um tæp 27% á sama tíma. Erlend kortavelta nam rúmum 10 milljörðum kr. í nóvember sl.


Frekara talnaefni aðgengilegt hér.


Um gögnin

  • Upplýsingar byggðar á kortaveltugögnum frá færsluhirðum, nánar tiltekið Valitor, Borgun/SaltPay, Kortaþjónustan/Rapyd og Netgíró. Gögnin koma frá færsluhirðum niðurbrotin á verslun og vefverslun.

  • Gögnin innhalda ekki einkaneyslulán (raðgreiðslur, yfirdráttur o.þ.h).

  • Tímabilið er almanaksmánuðir (ekki hefðbundið kortatímabil).

  • Gögnin innhalda bæði debet og kreditkort, einstaklinga og fyrirtækja (Fyrirtækjakort c.a. 8% af veltunni fyrir árið 2020).

  • Gögnin sýna þróun á breytilegu verðlagi.


Nánari upplýsingar veitir

Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir

Forstöðumaður RSV

sigrun@rsv.is

S: 533-3530


*Samanlögð innlend og erlend kortavelta í flokkunum verslun, þjónusta, opinber gjöld og úttektir á reiðufé

151 views

Comments


bottom of page